Stríðsárasafn

Stríðsárasafn

Ég heiti Sigfús Tryggvi Blumenstein og hef haft áhuga á munum frá stríðsárunum frá 10-12 ára aldri. Sem krakki var ég að tína upp byssukúlur úr fjörunni vestur í bæ en þar voru öskuhaugar Reykjavíkur á stríðsárunum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og safnið stækkað. Fyrst safnaði ég öllu sem ég kom höndum yfir sem tengdist stríðsárunum en seinna ákvað ég að safna eingöngu því sem ég gæti tengt hernámsárunum á Íslandi. Eftir tilkomu netsins hefur safninu vaxið ásmegin en uppboðsvefir og ýmsar söfnunarsíður hafa hjálpað mikið þar. Það er svo ásetningur minn að þetta komist á safn þar sem almenningur getur skoðað og fræðst um þessi umbrotaár í Íslandssögunni.

Gleymdir ræflar Íslands og byssukúlur í fjörunni.

Viðtal við mig í Fréttablaðinu miðvikudaginn 13. júlí 2022. Tekið af Jóhönnu Maríu Einarsdóttur.

Tryggvi á áhugavert safn af munum frá hernámsárunum á Íslandi og segist tilbúinn til að opna safn. Hann telur að margir geri sér ekki grein fyrir því hversu mikil umbrotsár þetta voru í íslenskri sögu. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sigfús Tryggvi Blumenstein er einn ötulasti safnari gripa frá hernámsárunum 1940–1947 á Íslandi og dreymir um að opna safn þar sem þessi merkilega saga er sögð í máli, myndum og munum.

Ætli ég sé ekki safnari að upplagi, enda var ég víst einn af þeim sem voru alltaf með eitthvað í vösunum þegar þeir komu heim eftir útiveru,“ segir Tryggvi, sem byrjaði að tína byssukúlur í fjörunni við Eiðsgranda sem tíu ára gutti. „Þarna voru gamlir öskuhaugar og má enn í dag finna ýmislegt þarna. Þetta þótti mér spennandi sem ungum strák. Ég safnaði þó ekki markvisst stríðsmunum á þessum tíma, en þetta var klárlega byrjunin. Ég er enn fremur norskættaður í móðurættina og á stríðsárunum voru norskir hermenn til dæmis heima hjá mömmu. Föðurættin er svo frá Þýskalandi og afi minn þeim megin var í fangabúðum öll stríðsárin. Því voru til ýmsir munir frá stríðsárunum á heimilinu vestur í bæ, eins og hjálmur og svo byssustingur,“ segir Tryggvi.

Kipptu okkur úr moldarkofunum

Að mati Tryggva safna ekki margir markvisst munum frá hernáminu á Íslandi. „Mitt safn afmarkast eingöngu við stríðsárin á Íslandi, hvort sem það er frá íslensku loftvarnarsveitinni, póstur til og frá hernum, peningaseðlar, dagblöð og annað. Það er svo margt sem tengist þessum tíma og hver hlutur á sér stórmerkilega sögu.“

Tryggvi segist ekki viss um hvenær söfnunaráhuginn fór að beinast markvisst að hernámsárunum. „Þetta þróaðist hjá mér. Fyrst safnaði ég hermannadóti almennt. Þá seldu engar búðir á landinu þannig varning og ef einhver fór til útlanda þá var keyptur hjálmur eða annað. Svo fannst mér áhugavert að einskorða mig við hernámsárin á Íslandi. Þetta er nefnilega mjög áhugaverð saga. Ég held að margir skilji ekki hversu mikill umbrotatími þetta var í íslenskri sögu og hvað hann breytti samfélaginu mikið. Okkur var svo að segja kippt úr moldarkofunum inn í nútímann.“

Á myndinni er: Amerískur 1 Garand .3006 herriffill, vatnslitamynd eftir hermann, jólamatseðill frá 1943 sem hermaður hefur ritað minningarbrot á og margt fleira merkilegt úr safni Tryggva. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Tryggvi stofnaði vefsíðu, fbi.‌is, til að kynna safnið og taka allt saman áður en tímabilið hverfur úr minni þjóðarinnar. „Það er svo margt til sem tengist þessum tíma sem fólk gerir sér ekki grein fyrir að eru söguleg verðmæti. Ég veit ekki hve margar sögur ég hef heyrt af fólki sem átti gasgrímu eða annað frá þessum tíma en er nú búið að henda þeim. Margir luma á ýmsum búnaði sem þeir keyptu frá Sölunefnd varnarliðseigna á sínum tíma. Svo flytur fólk og minnkar við sig, og þá endar þetta oft í Sorpu. Það er áskorun að varðveita þetta áður en þetta hverfur og ég viðurkenni það alveg að hafa bjargað fáeinum munum frá urðun úr gámum Sorpu.“

Tryggvi er að sögn orðinn nokkuð naskur á að bera kennsl á gripina. „Ég greini auðveldlega í sundur gripi frá Bretum og Bandaríkjamönnum enda var búnaðurinn ólíkur. Ameríkaninn var lengur á landinu og fyrir vikið finnst meira frá honum. Þá var sá búnaður nokkuð vandaðri en sá breski. Norski herinn var líka með viðveru á landinu fyrripart stríðs en ég á ekki mikið frá þeim, því miður.“

 

Leyfisbréf frá ameríska hernum til að komast til og frá sumarhúsi við Geitháls. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Gleymdir ræflar Íslands

Á vefsíðunni sem Tryggvi stofnaði safnar hann saman ýmsum fróðleik, greinum, stafrænu efni og fleiru í tengslum við hernámið á Íslandi og sýnir þar einnig hluta af safninu sínu. Nafnið, fbi.is, stendur fyrir „Forgotten Bastards of Iceland“ sem er tilvísun í ákveðinn safngrip sem Tryggvi á nokkur eintök af. „FBI er yfirskriftin á viðurkenningarskjali sem ég held að Bandaríkjamenn hafi byrjað á. Skjalið hlutu menn eftir að hafa þjónað 101 dags herskyldu á skerinu eða lengur. Mönnum leiddist víst nokkuð í vistinni hér á landi og söfnuðu margir hverjir kílóum. Þetta hefur verið leið til að stytta sér stundir og mönnum hefur þótt þetta skemmtilegur og merkilegur áfangi enda eru mörg af skjölunum innrömmuð. Það hefur líklega þótt áhugavert að hafa verið á Íslandi, eins og þykir enn í dag.“

Tryggvi á einnig dágott safn af minjagripum sem voru seldir og gefnir hermönnunum á hernámsárunum, en hann segir hermennina hafa verið eins konar túrista á Íslandi. „Ég á nokkur útsaumuð Álafoss-teppi sem hermennirnir keyptu af íslenskum konum. Þær fengu víst vel greitt fyrir vinnuna og í peningum en ekki inneign í kaupfélaginu líkt og venja var. Einnig á ég ýmsa skartgripi sem hermennirnir smíðuðu sjálfir, oft úr myntum, áli úr flugvélum sem höfðu farist og skothylkjum. Einhver hafði smíðað lampa úr skothylkjum skreyttan með mynt. Þarna voru menn að bjarga sér.“

Vatnslitamynd máluð af hermanni af Seltjarnarnesi 1942. Sigtryggur Ari

Vill opna opinbert safn

Safnið fyllir heilt herbergi heima hjá Tryggva og er vandlega pakkað niður í marga kassa. Hann hefur sett upp sýningar í bókasöfnunum í Mosfellsbæ og Selfossi. Einnig setti hann upp hernámssýningu í Mosfellsbæ 2016 sem er jafnframt stærsta sýningin á munum hans. „Þar sýndi ég alls ekki allt safnið og ég á mér draum að opna opinbert safn. Ég bý í Mosfellsbænum og því væri það ósk mín að safnið yrði sett upp í framhaldsskólanum Brúarlandi í Mosfellsbæ, enda voru höfuðstöðvar hersins þar. Ef það gengi ekki, þá sæi ég safnið fyrir mér í einu af húsnæðinu við Reykjavíkurflugvöll.“

Tryggvi segist vanda valið í safnið. „Ég þarf að hemja mig enda hef ég ekki endalaust pláss. Á Selfossi sýndi ég til dæmis einkennisbúning hermanns úr breska flughernum og setti í samhengi við dömufatnað sem ég átti ekki sjálfur en var til á staðnum. Við sýningargripina stóð: „Eitthvað gekk þessum Leading Aircraftman í breska flughernum illa að ná sér í dömu.“ Það er hjálplegt að sjá hlutina í sögulegu samhengi. Ef ég næði að opna safn væri gaman að eignast kvenfatnað frá þessum tíma fyrir sviðsetningar eins og þessa.“

Jólamatseðill frá ameríska hernum 1943, hermaðurinn hefur ritað minningabrot á hann. Sigtryggur Ari

Merkilegur ómerkisgripur

„Verðmætustu gripir safnsins, í krónum taldir, eru vopnin,“ segir Tryggvi. „Byssurnar eru vissulega hluti af sögunni og nauðsynlegir safngripir þótt þær veki misjöfn viðbrögð. Þær geta auðveldlega hlaupið á bilinu 150.000 krónur og upp úr. Ég á þó engar svo dýrar byssur í mínu safni.“

Uppáhaldsgripur Tryggva í safninu lætur þó ekki mikið yfir sér. „Þetta er ekki eins og í sumum söfnum, þar sem allir slefa yfir dýrasta og flottasta hlutnum. Minn uppáhaldsmunur er ryðgaður járndunkur utan af bensíni. Bretinn flutti inn bensín í svona dunkum og þessi hefur verið opnaður að ofan, negld í hann lítil spýta og hann hálffylltur af sandi. Svo fylgdi sandpoki með dunkinum. Ryðgaði bensíndunkurinn fannst uppi á lofti í húsi í miðbænum sem Bretinn hélt til í og var hluti af loftvarnarviðbúnaði. Hann var ætlaður til að slökkva í íkveikjusprengjum sem var varpað úr loftárás, brutu sér leið í gegnum þök og lentu á gólfinu.

Magnesíum var í sprengjunum og því brunnu þær afar heitt. Því var nær ómögulegt að slökkva í þeim með vatni. Íkveikjusprengjurnar voru teknar upp með skóflu, settar ofan í dunkinn og svo var sandi hellt yfir til að kæfa eldinn. Ætli þetta sé ekki merkilegasti hluturinn í mínum augum, einmitt vegna þess að hann er svo ómerkilegur. Það er sagan á bak við sem er aðalatriðið.“ ■